Íslenski boltinn

Stór­furðu­leg at­burða­rás þegar mark­vörður KR sá rautt

Sindri Sverrisson skrifar
Guy Smit fórnaði höndum eftir að hafa fengið seinna gula spjaldið sitt fyrir að tefja, að mati dómarans, og þar með rautt.
Guy Smit fórnaði höndum eftir að hafa fengið seinna gula spjaldið sitt fyrir að tefja, að mati dómarans, og þar með rautt. Stöð 2 Sport

Guy Smit hefur átt erfitt uppdráttar að undanförnu sem markvörður KR og hann fékk að líta rauða spjaldið á Greifavellinum í gær, eftir furðulega atburðarás í 1-1 jafntefli við KA í Bestu deildinni í fótbolta.

Smit fékk tvö gul spjöld á aðeins um mínútu kafla, og þar með rautt spjald, þegar enn voru tæpar tuttugu mínútur til leiksloka og KR 1-0 yfir. Helstu atvik úr leiknum má sjá hér að neðan.

Klippa: Mörkin, vítið og rauða spjaldið á Akureyri

Fyrra spjaldið fékk Smit fyrir misheppnaða ferð út úr vítateignum, þegar hann braut á Ásgeiri Sigurgeirssyni. KA-menn voru furðu lostnir yfir því að Smit skyldi ekki strax þá fá rauða spjaldið, því Ásgeir hefði getað komist að markmannslausu marki KR, en dómarinn Twana Khalid Ahmed lét gula spjaldið nægja.

Það dugði þó Smit og KR-ingum skammt því mínútu síðar fékk Smit seinna gula spjaldið sitt, fyrir að tefja. Það vakti ekki síður furðu því Smit virtist ekki taka neitt óvenjulega langan tíma í að taka markspyrnu sína. Hann varð engu að síður að sætta sig við brottrekstur eins og sjá má hér að ofan.

Ásgeir tryggði KA stig og Steinþór varði víti

KA-menn náðu að nýta sér liðsmuninn þegar Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði metin á 77. mínútu. Það var Atli Sigurjónsson sem hafði komið KR yfir strax á 3. mínútu leiksins, og hann fékk skömmu síðar vítaspyrnu en Steinþór Már Auðunsson náði að verja spyrnu Benonýs Breka Andréssonar.

Eftir fimm umferðir er KA enn án sigurs, með tvö stig í næstneðsta sæti, en KR er með sjö stig í 6. sæti og gæti misst Val upp fyrir sig í kvöld þegar Breiðablik og Valur mætast í lokaleik 5. umferðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×